Væntanleg stefnumótunarvinna

Stjórn Grundarheimilanna hefur haldið tvo stefnumótunarfundi á ári, yfirleitt í mars og október.  Það var að frumkvæði stjórnarformanns Grundarheimilanna Jóhanns J. Ólafssonar að við hófum þessa vinnu með svo markvissum hætti og hefur að mínu mati skilað góðum árangri.

Þessir fundir hafa ýmist verið eingöngu með stjórnarmönnum Grundarheimilanna og ráðgjöfum en stundum höfum við útvíkkað hópinn og bætt við hann nokkrum lykilstarfsmönnum heimilanna.  Í ár þá verður sá háttur hafður á, að við bjóðum á undirbúningsfund nokkrum heimilismönnum, íbúum íbúðanna og aðstandendum.  Sá fundur er haldinn í dag föstudaginn 24. febrúar.  Á fundinum leitum við eftir því hvað gengur vel í starfinu og þjónustunni og hvað má fara betur.  Til að fá álit sem flestra er auk fundarins efnt til könnunar á meðal aðstandenda og íbúa íbúðanna.  Linkurinn er þessi:

https://www.surveymonkey.com/r/grund

Tekur stutta stund að svara og hentugt að fá svör og viðhorf sem flestra.  Niðurstöður undirbúningsfundarins og könnunarinnar verða síðan nýttar til frekari úrvinnslu á stóra stefnumótunardeginum sem er fyrirhugaður um miðjan mars.

Á mars fundinum munu auk stjórnar og ráðgjafa mæta nokkrir starfsmenn Grundarheimilanna sem munu marka stefnu þessara heimila og fyrirtækja til næstu ára.  Sú stefna er reyndar, eins og áður sagði, skoðuð og eftir atvikum endurskoðuð tvisvar sinnum á ári.

Að horfa fram í tímann er bráðnauðsynlegt í öllum fyrirtækjarekstri ásamt því að hlusta á óskir og þarfir þeirra sem búa hjá okkur á Grundarheimilunum þremur eða hjá Íbúðum 60+.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna