Vikupistlar

Jákvæðar fréttir úr Ási

Í janúarbyrjun fékk ég gleðitíðindi af væntanlegri byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Ási. Tölvupóst frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, þar sem fram kemur að fjórir aðilar hafa áhuga á að hanna og byggja nýtt 22 rúma hjúkrunarheimili gegnt því gamla, norðan megin við Hverahlíðina. Fyrri hluta síðasta árs fékkst enginn til verksins þannig að umskiptin eru mikil og því ber að fagna. Þessir aðilar fá til ráðstöfunar, ef þannig má að orði komast, ákveðna fjárhæð til að hanna, byggja og skila fullbúnu framangreindu heimili í takt við þá skilalýsingu sem fyrir liggur. Þær hugmyndir sem þessir fjórir skila, verða síðan rýndar af dómnefnd sem velur þá tillögu sem þykir vera best. Tímaáætlunin hljóðar upp á skil á þessu nýja fína húsi þann 11. mars árið 2025. Finnst það heldur bjartsýnt en á sama tíma vona ég svo sannanlega að þetta gangi eftir. Við höfum beðið heldur lengi eftir þessu nýja húsi og það er löngu tímabært að það rísi. Í beinu framhaldi af byggingu nýja heimilisins munum við taka það gamla í gegn. Tveggja manna herbergin verða aflögð og úr þeim útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi. Með þessum breytingum fækkar rýmum á móti þeim nýju og þegar upp verður staðið vænti ég þess að fjöldi hjúkrunarrýma í Ási verði á pari við það sem verið hefur undanfarin ár. Með þessum línum þakka ég hinu opinbera, ríki og Hveragerðisbæ, kærlega fyrir að standa að þessari framkvæmd með þessum hætti. Ríkið greiðir 85% og Hveragerðisbær 15%. Sú mikla bót á húsnæðismálum hjúkrunarheimilisins í Ási er löngu tímabær og verður fagnað með bros á vör og sól í hjarta. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ... lesa meira


Til eftirbreytni

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir auglýstu nýlega fyrir hönd ríkissjóðs eftir 4 til 8 þúsund fermetra húsnæði. Sem ráðgert er að nota fyrir 60 – 120 hjúkrunarsjúklinga á höfuðborgarsvæðinu í sólarhringsþjónustu. Sem sagt dæmigert hjúkrunarheimili. Og augljóst er að nú skal greiða leigu fyrir húsnæðið þar sem talað er um undirritun leigusamnings. Samnings sem verður til allt að 20 ára með möguleika á 10 ára framlengingu. Athygli mína vakti afar stuttur frestur til að skila inn tilboði, oft á hinn veginn hjá hinu opinbera, en þörfin er brýn og því nauðsynlegt að bregðast skjótt við. Með þessari auglýsingu hefur orðið feikn mikil og jákvæð breyting á afstöðu ríkissjóðs/ríkisvaldsins til þess að greiða leigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir hjúkrunarþjónustu og umönnun þeirra sem eldri eru og þurfa á slíku skjóli að halda. Fyrir rétt rúmlega tveimur árum töpuðu Grundar- og Hrafnistuheimilin í Hæstarétti máli sínu á hendur sama framangreinda ríkisvaldi, þess efnis að fá greidda sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem félögin útvega til reksturs hjúkrunarrýma. Þessi auglýsing er því algjör himnasending og staðfestir hér með ríkan vilja ríkisvaldsins til að greiða, og þá væntanlega öllum, ekki bara sumum, sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir öldrunarþjónustu hér á landi. Það eru greinilega bjartari tímar framundan enda batnandi mönnum best að lifa. ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ​... lesa meira


Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Flestum okkar finnst sjálfsagt að búa við góða heilsu. Ég hef í það minnsta verið heppinn hingað til og verið heilsuhraustur það sem af er ævi. Minnist þess ekki að hafa legið á sjúkrahúsi eða veikst alvarlega. En það er síður en svo sjálfgefið hjá síðmiðaldra manni eins og mér. Engu að síður getur maður gleymt sér og fundist lífið eitthvað ómögulegt þegar það í raun blasir við manni, fullt af tækifærum og skemmtilegheitum. Sleit sin í löngutöng um daginn, líklega í flugeldasölunni. Fremsta kjúkan lafði aðeins niður og ég fór ekki strax til læknis. Kíkti á HSU í síðustu viku og fékk þá þessa niðurstöðu með slitnu sinina. Og þar sem ég hafði trassað að láta kíkja á þetta þarf ég að vera með spelku á fingrinum næstu sjö vikurnar. Hefur aðeins takmarkandi áhrif á mig, get til dæmis ekki tekið þátt í björgunarsveitarstörfum af neinu viti fyrr en í mars. Var smá svekktur til að byrja með en var kippt gersamlega niður á jörðina í síðustu viku. Þurfti að fara í verslunina Stoð í Hafnarfirði að kaupa mér aðeins stærri spelku á puttann. Á undan mér í búðinni var ung kona, rúmlega tvítug, mjög líklega með einhvern ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdóm, var frekar veikburða að sjá. Hún var að fá nýjar hækjur og á hækjurnar var verið að setja færanlegan brodd til að setja niður til notkunar í hálkunni. Síðan var hægt með einu handtaki að setja broddinn til hliðar. Andlit hennar ljómaði yfir því sem hún var að fá og ég heyrði á henni hvað hún var glöð með þetta allt saman, hækjurnar og fiffið sem fólst í því að setja broddinn niður með einu handtaki. Ég dauðskammaðist mín yfir því að hafa dottið í hug að kvarta, reyndar bara innra með mér og við Öldu, vegna þessarar litlu fingurspelku. Ég get verið alveg klikk. Þarna sá ég hversu lánsamur ég hef verið í gegnum tíðina og hef í raun yfir engu að kvarta. Munum þetta dæmi mitt næst þegar við dettum í einhvern dökkálfagír út af einhverjum smámunum, vondu veðri, óþekkum börnum eða slitnum sinum. Hlutskipti okkar gæti orðið að fagna með bros á vör og þakklæti brodd á hækjum, sem við þyrftum að nota fyrir lífstíð. ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ​... lesa meira


Væg einkenni

Var að spjalla við eiginkonuna og annan samstarfsmann um daginn. Ég eitthvað smá utan við mig og Alda segir að ég hafi öll einkenni athyglisbrests og ofvirkni. Ég, í alvörunni, hafði aldrei leitt hugann að þessu og brá talsvert. Hef svo sem gert mér grein fyrir því að ég er tiltölulega virkur og þokkalega duglegur að eðlisfari, en hafði aldrei leitt hugann að þessu áður. Fannst einhver veginn að flestir sem hefðu slík einkenni væru á einhvers konar lyfjum eða meðferðum vegna þessa. Og ég hef aldrei tekið nein slík lyf eða spáð í einhvers konar meðferð. Ferlegir fordómar og fáfræði af minni hálfu, en ég viðurkenni það þó, segi nánast alltaf það sem mér finnst. Á það reyndar til að gleyma hlutum, vaða úr einu í annað, var í eldhúsinu áðan að taka úr uppþvottavélinni, datt þá í hug að sækja kjöt í frystinn niðri fyrir annað kvöld, hætti að taka úr hálfri vélinni, fór niður og tók úr þvottavélinni og setti í þurrkarann og gleymdi að taka kjötið úr frystinum. Týni hlutum tiltölulega auðveldlega, legg þá frá mér í hugsunarleysi og man svo ekkert hvar ég skildi þá eftir. Finn þá stundum nokkrum dögum síðar, eða bara alls ekki. Finn ekki, þrátt fyrir talsverða leit, einhverja hluti sem eru svo beint fyrir framan mig, næ bara ekki einbeitingu í leitinni. Þegar ég skrifa á lyklaborðið skrifa ég stundum stafi úr næsta eða þarnæsta orði, er kominn á undan mér í huganum og átta mig ekki á því fyrr en ég er í raun kominn í næsta orð, án þess að vera búinn að skrifa orðið sem er á undan. Er eins og áður sagði frekar ör, snöggur til, og jafnvel hvatvís. Hef þó aðeins, held ég, róast með árunum. Hef þó gengið þokkalega í skóla hingað til en líklega hefði ég verið settur á einhver lyf ef ég hefði fæðst þrjátíu árum síðar. Líður bara vel með þessa greiningu eiginkonunnar en velti þessum hlutum þó aðeins fyrir mér. Ætla þó ekki að grípa til neinna aðgerða eða leita mér greiningar eða hjálpar. Líkar bara ágætlega við mig eins og ég er. Og líklegast hef ég bara allnokkur einkenni athyglisbrests og ofvirkni, ekki væg. Ég segi bara eins og hálfnafni minn: „Ég er eins og ég er.“ ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Nýtt ár handan við hornið

Enn eitt skemmtilegt, viðburðar- og árangursríkt árið er rétt að renna sitt skeið. Tvennt stendur upp úr í mínum huga. Aldarafmæli Grundar og lok Covid 19 tímabilsins. Þó er óhætt að segja að við erum ekki alveg laus við Covid 19, heldur er það orðið hluti af okkar daglega lífi og ekki nauðsynlegt, í það minnsta ekki eins og er, að tækla smitin af þeirri hörku sem leiddu af sér einangrun heimilismanna og vanlíðanar þeirra, aðstandenda og ekki síður starfsfólks Grundarheimilanna. Ég hef í fyrri pistlum fjallað um Covid 19, aðgerðir okkar, afleiðingar og læt þar við sitja í bili. Eflaust koma einhverjir aðrir slíkir sjúkdómar aftur sem gera okkur skráveifu, og þá tökum við á því eins og við þekkjum best til. Hitt atriðið sem ég nefndi hér að framan er 100 ára afmæli Grundar. Ég er afskaplega stoltur og ánægður með hvernig til tókst að minnast þessara merku tímamóta. Það hefur þó líklega ekki hvarflað að langafa mínum Sigurbirni og hans samstarfsmönnum fyrir rúmum hundrað árum að Grund sé og hafi verið sá mikli máttarstólpi í öldrunarþjónustu landsins og raun ber vitni. Grund var fyrstu rúma þrjá áratugina eina alvöru öldrunarstofnun landsins og eftir að Hrafnista tekur til starfa á sjötta áratugnum þá hafa þessi tvö heimili verið tvö þau stærstu í öldrunarbransa landsins. Það er vandaverk að halda áfram á þeirri góðu braut sem forfeður mínir mörkuðu og auðvitað kemst ég ekki með tærnar þar sem þeir höfðu hælana. Framundan eru bjartir tímar og tímar mikilla áskorana í öldrunarþjónustu. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að neytendum öldrunarþjónustu kemur til með að fjölga verulega á næstu árum og áratugum, eitthvað sem margir aðrir atvinnuvegir búa ekki við. Með pistli þessum vil ég nota tækifærið og þakka heimilisfólki Grundarheimilanna fyrir þrautseigju í Covid 19 faraldri og skilning aðstandenda á þeim aðgerðum sem við gripum til vegna faraldursins. Sérstakar þakkir færi ég öllu starfsfólki Grundarheimilanna fyrir það framúrskarandi góða starf sem þið hafið innt af hendi undir þeim mjög svo erfiðu kringumstæðum sem faraldur síðustu rúmlega tveggja ára hefur valdið okkur. Þið eruð ómetanleg. ​Kveðja og gleðilegt nýtt ár, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Blessuð skatan

Í dag lykta mörg hús landsmanna ansi illa. Þar á meðal eldhús og borðsalir Grundarheimilanna. Auk skötu verður boðið upp á saltfisk þannig að það finna vonandi allir eitthvað við sitt hæfi. Hef einnig heyrt utan af mér að einhvers staðar verði hægt að næla sé í flatbökubita. Sel það ekki dýrara en ég keypti. Þegar við Alda tókum saman fyrir tæpum 13 árum hafði ég aldrei smakkað skötu. Datt það aldrei í hug, þvílík ólykt af þessum mat, sem væri eflaust mikið skemmdur. Þrátt fyrir áskoranir þess efnis að prófa og að bragðið væri allt annað en lyktin þá fékk ég mér aldrei bita af skötu. En þar sem Alda var vön skötu frá blautu barnsbeini þá fékk hún mig til að smakka, bara einu sinni. Og viti menn, ég kolféll fyrir bragðinu. Sé meira að segja pínu eftir því að hafa ekki smakkað fyrr, þvílíkt lostæti sem vel kæst skata er. Ég er mikill gráðostamaður og þegar ég prófaði skötuna í fyrsta sinn fannst mér eins og ég væri að borða heitan gráðost. Það eru ef til vill ekki allir sammála mér með þessa gráðostalýsingu en mér finnst hún eiga vel við. Ég hlakka alltaf mikið til Þorláksmessu að fá mér rjúkandi heita skötu, kartöflur og íslenskt smjör (já ég veit að ég er ekki kominn ennþá í hnoðmörinn) seinni part dags ásamt malti og appelsíni. Borða alveg á mig gat og finna um kvöldið hvernig smá hluti af skinninu innan á kinnunum flagnar lítillega af. Dásamlegt. Alda hafði aldrei prófað rjúpur áður en við tókum saman. Hún prófaði þær á aðfangadagskvöld og líkar mjög vel. Þannig að við lærðum nýjar matarvenjur af hvort öðru um jólahátíðina og græddum bæði helling á því. Verði ykkur að góðu í skötunni og rjúpunum, eða hverju öðru því sem þið snæðið um jólahátíðina. ​ Kveðja og gleðileg jól, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Gerðu það sem þú getur, með það sem þú hefur, þar sem þú ert

Las fantagóða bók um daginn sem fóstursonur minn Bárður Jens lánaði mér. Við skiptumst dálítið á góðum bókum. Hún heitir „The Stoic Challange, a Philosopher´s guide to becoming tougher, calmer and more resilient.“ Fjallar í stuttu máli hvernig skynsamlegast er að bregðast við áföllum í lífinu. Stórum sem smáum. Höfundurinn, William B. Irvine, er prófessor í heimspeki í Wright háskólanum í Dayton Ohio. Hann hefur stúderað heimspekistefnu sem nefnist Stóustefnan. Sú stefna mótaðist í Aþenu undir lok 4. aldar fyrir Krist. Ætla ekki út í smáatriði en eins og ég las og skildi bókina þá finnst mér hún vera að hluta til í það minnsta, nánari útfærsla á Æðruleysisbæninni. Hvernig maður tæklar þau áföll og aðstæður sem þeim fylgja dags daglega. Irvine skilgreinir áföllin sem próf Stóaguðanna sem okkur er falið að leysa. Hann tekur reyndar fram að Stóuguðirnir séu ekki til, frekar en aðrir guðir. Það mikilvægasta, til að leysa hvert próf með hæstu einkunn, er hvernig við bregðumst við áfallinu. Margir leita að sökudólgum, öðrum en sjálfum sér. Það sem kom fyrir er öðrum að kenna, ekki mér. Að tapa körfuboltaleik er dómaranum að kenna, ekki að liðið mitt hafi verið lélegra. Þekki þetta sem fyrrum körfuboltadómari. Með því að líta á öll áföll, allar áskoranir sem verkefni eða próf, og leysa þau af bestu getu, með stóískri ró, líður okkur miklu betur en ella. Það að reiðast eða fara í fýlu ef á móti blæs er auðvitað tóm vitleysa. Auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma. Mér fannst ég þó vera heldur á þessari leið Stóumanna en ekki, áður en ég las bókina góðu. Og lífið verður ennþá skemmtilegra og auðveldara að lifa ef maður nálgast þessi lífsviðhorf og fer eftir þeim. Eitt vakti sérstaka athygli mína við lestur bókarinnar en það er umfjöllun höfundar um sorgarviðbrögð. Elisabeth Kübler-Ross geðlæknir setti fram kenningu um fimm stig sorgar, afneitun, reiði, viðræðuferli, þunglyndi og sátt. Eflaust margar þýðingar og skilgreiningar til á þessum stigum en læt þessar duga. Stóaheimspekingarnir segja að maður eigi að fara beint í sáttina. Við getum ekkert breytt því að einhver okkur náinn er látinn, við eigum ekki að eyða tíma og orku í hin stigin fjögur. Finnst þetta vera dálítið útópískt og líklega fæstir sem fara beint þangað. En ætla engu að síður að velta þessu aðeins fyrir mér. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ​ ​... lesa meira


Falleg og nytsamleg gjöf

Í tilefni af aldarafmæli Grundar fengum við nokkrar fallegar gjafir. Blóm, myndir, veglega peningagjöf og ýmislegt fleira. Það sem stóð upp úr, þó maður eigi nú kannski ekki að gera upp á milli afmælisgjafa lærði ég reyndar sem ungur maður, voru tónleikar sem tryggingafélagið VÍS færði heimilismönnum Grundar. Tengiliður okkar hjá VÍS hafði samband við mig nokkru fyrir afmælið og spurði hvað okkur finndist um að fá í afmælisgjöf tónleika fyrir heimilisfólk Grundar með góðu tónlistarfólki. Mér leist mjög vel á hugmyndina og enn glaðari varð ég þegar ég heyrði að það var hljómsveitin GÓSS sem spiluðu og sungu fyrir heimilisfólkið þriðjudaginn í síðustu viku. GÓSS skipa þau Guðmundur Óskar, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson. Fullur hátíðarsalur af heimilisfólki, aðstandendum og starfsmönnum nutu stundarinnar til fullnustu og það var mikið brosað og klappað. Fyrir hönd okkar allra á Grund þakka ég VÍS kærlega fyrir fallega, rausnarlega og nytsamlega gjöf. Þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu kórum, tónlistarmönnum og hverjum öðrum þeim sem hafa gefið sér tíma og heimsótt Grundarheimilin með sína fallegu afþreyingu. Má þar meðal annars nefna nýleg dæmi eins og Jólakórinn, Laufáskórinn, skólahljómsveit Vesturbæjar, Lúðrasveitina Svan og svo mætti lengi telja. Við á Grundarheimilunum höfum notið menningar- og skemmtiframlags þúsunda í gegnum tíðina og vonandi heldur slíkt áfram um ókomna tíð. ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Frá hugsjón til heillaríks starfs í heila öld

Lokapunkturinn á vel heppnuðu aldarafmæli Grundar verður settur yfir i – ið næstkomandi sunnudagskvöld. Kl. 20.15 verður sýnd á RÚV heimildamynd um aðdragandann að stofnun Grundar og starf Grundarheimilanna í Reykjavík og Hveragerði í heila öld. Stjórn Grundar ákvað snemma á síðasta ári að fá Jón Þór Hannesson til að gera framangreinda heimildamynd í tilefni af afmælinu og semja við RÚV um sýningu hennar. Afraksturinn kemur fyrir augu landsmanna strax á eftir Landanum og eflaust verða margir við viðtækin. Jón Þór er mikill reynslubolti í gerð heimildamynda og vann lengi hjá Saga film en hann var einn af stofnendum og starfsmönnum þess góða fyrirtækis. Myndin byggir að hluta til á 100 ára sögu Grundar sem var gefin út í tilefni afmælisins en þar að auki eru viðtöl við fjölmarga einstaklinga, bæði sem vinna á Grund, búa á Grund eða tengjast Grund með ýmiskonar hætti. Ég ákvað strax í upphafi að skipta mér ekkert af gerð myndarinnar og fela Jóni Þór alfarið að sjá um gerð hennar. Og er afar ánægður með þá ákvörðun mína og sé að hún var hárrétt. Maður er sjálfur líklega of nálægt þeirri daglegu starfsemi Grundarheimilanna til að geta áttað sig á samhengi hlutanna. Jóni Þór tókst að draga upp hlutlausa mynd af öldinni sem liðin er frá því að hugmyndin um stofnun og rekstur öldrunarheimilis kom upp hjá langafa mínum og fleiri góðum mönnum. Ég hvet ykkur til að poppa, kæla gosið og setjast við sjónvarpsskjáinn næstkomandi sunnudagskvöld kl 20.15. Njótið. ​ Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Að gefa bók

Eins og hefur áður komið fram á þessum vettvangi gáfum við út 100 ára sögu Grundar í tilefni af aldarafmæli heimilisins nú í október síðastliðnum. Framúrskarandi vel rituð af þeim feðginum Guðmundi Óskari Ólafssyni (fyrstu 75 árin) og svo dóttur hans Guðbjörgu Guðmundsdóttur (síðustu 25 árin). Bókin var prentuð í nokkur þúsund eintökum og strax ákveðið að gefa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna eintak. Starfsmenn hafa sótt sér eintak á undanförnum dögum og stendur hún þeim endurgjaldslaus til boða í verslunum Grundarheimilanna til áramóta. Ég aftur á móti ákvað að færa öllum heimilismönnunum Grundarheimilanna þriggja bókina ásamt gamadags borðdagatali með myndum úr starfsemi Grundar á fyrri hluta og upp úr miðri síðustu öld. Sú gjafaferð hefur staðið yfir undanfarna daga og hefur gefið mér mikið. Ég er ekki spjalltýpan, að rölta um heimilin þrjú, setjast niður með heimilisfólki og taka það tali. Ég þarf að hafa „tilgang“ með spjallinu, ef þannig má að orði komast. Kannski finnst lesendum þetta skrýtið, en svona er ég bara. Mamma var, og er reyndar enn, þessi góða manneskja sem röltir um Grund og spjallar og tekur kaffibolla með heimilis- og starfsfólki. Sem er bara fínt. Ég var því mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til spjalls við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Margir voru afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Það var notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel hjá okkur. Við erum sennilega að gera eitthvað rétt. Nokkrir spurðu hvort þau mættu taka í hendina á mér og þakka fyrir. Upplifði mig eitt augnablik eins og „fræga rokkstjörnu“, sem ég er alls ekki en fannst þetta nokkuð skondið. Ein heimiliskona bað mig um áritun, sem mér þótti mjög vænt um. Ef aðstandendur eða einhverjir aðrir vilja eintak af bókinni þá er það sjálfsagt mál. Datt í hug að leggja til, að þeir sem myndu þiggja eintak, aðrir en heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna, myndu leggja eins og þrjú þúsund krónur inn á eitthvað það líknarfélag sem þeim hugnast. Eitthvað sem afi minn Gísli Sigurbjörnsson hefði líklega gert við tímamót sem þessi og ég er sennilega að stela hugmyndinni frá honum. Þannig að ef einhver vill eintak, sendið línu á mig eða grund@grund.is, bókin verður send til ykkar og þið ráðið þá hvert þrjúþúsundkallinn fer. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira