Vikupistlar

Sumarbyrjun ??

Nú styttist í sumarið, þó að veðurfarslega sé ekki að sjá það. Við vonum það besta og reiknum með að við fáum betra sumar eftir rysjótt vorið. Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá okkur á Grundarheimilunum t.d. hefur púttvöllurinn sem að við erum með í Mörkinni látið verulega á sjá. Við eigum von á því að geta opnað hann fljótlega, þó að hann verði ekki orðinn iðagrænn. Við leitum ráðlegginga til færustu golfvallarsérfræðinga í þeim efnum og fylgjum þeirra ráðum. Víða hafa nýþvegnir gluggar i Mörk og Ási líka fengið að kenna á rokinu og erfitt að sjá út. Það sem að fylgir vorinu og upphafi sumars hjá okkur er svo fjöldinn allur af sumarstarfsfólki sem að kemur til starfa til að hleypa okkur sem að venjulega stöndum vaktina í kærkomið frí. Hópurinn er að venju stór og fjölbreyttur og hef ég notað tækifærið til þess að hitta nýliðana okkar sem að þegar eru komnir til starfa í nýliðafræðslu sem að er byrjuð hjá okkur á öllum heimilum. Næsti hópur byrjar svo í byrjun júní í fræðslunni, en fræðslan er keyrð í tveimur hópum þar sem að starfsmenn byrja á misjöfnum tímum. Við þetta tilefni hef ég notað tækifærið og kynnt þeim eitt það allra mikilvægasta sem að við verðum að hafa í huga við þjónustu þeirra sem að þurfa á okkar þjónustu að halda. Að mínu mati er það eitt af gildum Grundarheimilanna, virðing. Öll viljum við njóta virðingar og mikilvægt að við gætum þess í störfum okkur að gleyma því ekki í samskiptum við aðra. Við berum virðingu fyrir samstarfsfólki, heimilisfólki, aðstandendum o.fl. og ætlumst til að fá virðingu til baka. Við þurfum ekki að vera sammála til að sýna skoðunum og lífsýn annarra virðingu. Alltaf er gott að hafa hugfast hvað maður sjálfur myndi vilja þegar að einhver gengur mjög nálægt manni í að sinna persónulegum þörfum. Við þurfum líka að muna það að spyrja heimilisfólk hvað það vill og sýna skoðunum þeirra og vali viðringu með því að nálgast þau eins og við sjálf myndum vilja. Viljum við ekki vera spurð um hvað við viljum borða í morgunmat? Viljum við láta tala um okkur eða við okkur? Margt smátt sem að við getum gert sem að skiptir gríðarlegu máli. Ég býð alla okkar frábæru nýliða velkomna til starfa og hvet þá sem að fyrir eru til að taka vel á móti þeim og aðstoða við fyrstu skrefin í nýju starfi. Það ferli er lærdóms ríkt fyrir okkur öll. Þessi vikupóstur er minn fyrsti sem nýr forstjóri Grundarheimilanna. Ég nota tækifærið til að þakka stjórn Grundarheimilanna traustið sem að mér er sýnt með því að fela mér þetta starf. Ég hef notið fyrstu dagana í starfinu og hlakka til áframhaldandi samstarfs hér eftr eins og síðustu 12 ár þar á undan í öðru hlutverki. Ég auglýsi sömuleiðis eftir góðum hugmyndum að umfjöllunar efni, af nógu er að taka og flott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Stjórnarformanni þakkað

Á stjórnarfundi Grundarheimilanna fyrir viku lét Jóhann J. Ólafsson stjórnarformaður af embætti sínu. Jóhann hefur gegnt embætti stjórnarformanns í tæp tuttugu ár og staðið sig mjög vel. Jóhann hefur alla tíð lagt mikla áherslu á stefnumótun og mikilvægi þess að horfa fram í tímann, bæði langt og stutt. Hann stóð fyrir og mótaði okkar árlegu, og stundum tvisvar á ári, stefnumótunarfundi þar sem litið er til framtíðar, spáð og spekúlerað, ásamt því að líta í baksýnisspegilinn til að læra af því sem áður var gert. Nýjar hugmyndir, hugsa út fyrir boxið og horfa á hlutina út frá viðskiptahagsmunum hafa einnig verið góðu kostir Jóhanns í stjórn Grundar sem hafa oft á tíðum komið heimilunum mjög vel. Við Jóhann höfum ekki alltaf verið sammála, sem betur fer. Mismunandi skoðanir gefa kost á rökræðum, velta fyrir sér kostum og göllum hvers máls fyrir sig og við höfum ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu, jafnvel niðurstöðu sem hvorugur okkar sá við upphaf rökræðna. Með þannig mönnum finnst mér gott að vinna. Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég Jóhanni kærlega fyrir afar gott og farsælt samstarf og óska honum velfarnaðar. ​ Allt hefur sinn tíma. Þessi pistill er sá síðasti sem ég sendi ykkur sem forstjóri Grundarheimilanna og þakka ég ykkur kærlega fyrir samfylgdina, lesturinn og mörg áhugaverð svör í gegnum árin. Ég hef lært af ykkur og fengið góðar og uppbyggilegar athugasemdir í gegnum tíðina. ​ Kveðja og góða framtíð, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ​ ​... lesa meira


Nýr forstjóri Grundarheimilanna

Í morgun samþykkti stjórn Grundarheimilanna að ráða Karl Óttar Einarsson sem nýjan forstjóra Grundarheimilanna frá og með 1. maí næstkomandi. Karl Óttar hefur unnið hjá Grundarheimilunum frá júní 2011. Fyrst sem bókari til ársins 2016, síðan fjármálastjóri og frá árinu 2019 hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrar og fjármála. Karl Óttar er menntaður viðskiptafræðingur auk þess að vera með meistargráðu í reikningshaldi og endurskoðun. Hann er kvæntur Halldóru M. Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Á sama fundi var samþykkt að ráða undirritaðan í 50% starf stjórnarformanns Grundarheimilanna og tekur sú ráðning einnig gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Ég er þar af leiðandi langt í frá hættur störfum fyrir Grundarheimilin enda þótt ég færi mig úr forstjórastólnum. Í þessu nýja hlutverki fæ ég kærkomið tækifæri til þess að einbeita mér að framtíðinni, skoða stór uppbyggingarverkefni og þróa þau í samstarfi við einkaaðila sem opinbera eftir því sem við á. Ég mun einnig sinna samskiptum við ríkisvaldið, ráðherra og ráðuneyti, þingmenn, borgar- og bæjarfulltrúa, Sjúkratryggingar Íslands og fleiri. Þá mun ég taka þátt í nefndarstörfum á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og opinberra aðila, til dæmis um húsnæðismál hjúkrunarheimila. Ég hef starfað hjá Grundarheimilunum í tæplega 33 ár, frá mánudeginum 17. september 1990. Þetta hefur verið feikn skemmtilegur og á oft á tíðum annasamur tími. Bygging hjúkrunarheimilis í Ási í Hveragerði, stofnun og bygging hins tæknivædda þvottahúss í Ási sem þjónustar öll Grundarheimilin og uppbygging metnaðarfulla eldhússins okkar á sömu slóðum, sem m.a. sendir daglega heitar máltíðir og annan kost til Reykjavíkur, er á meðal þeirra verkefna sem við getum verið stolt af. Kaup okkar og bygging á íbúðum í Mörkinni auk reksturs á hjúkrunarheimili á sama stað stendur einnig upp úr. Fjölmörg önnur góð og brýn verkefni koma upp í hugann en of langt mál er að telja þau upp hér. Auðvitað var svo hundrað ára afmælið í fyrra merkur áfangi sem aldrei mun gleymast. Ég hef kynnst og unnið með mörgum skemmtilegum, duglegum og kraftmiklum einstaklingum. Til að mismuna ekki eða gleyma einhverjum verður enginn nafngreindur hér en ég er afar þakklátur öllum þeim fjölda samstarfsmanna sem hafa farið með mér í gegnum ólgusjó síðustu þriggja áratuga. Þar hafa margir mjög góðir samherjar lagt hönd á plóg með afbragðs fagmennsku og endalausa þrautseigju í farteskinu. Ég hef verið að velta þessum hlutverkaskiptum mínum fyrir mér í allnokkur ár og ekki síst eftir að ég festi sjónar á þeim möguleika fyrir margt löngu að Karl Óttar hefði allt það til að bera sem gæti gert hann að góðum forstjóra Grundarheimilanna. Ég sá það reyndar býsna fljótt og ráðning hans á sér því langan aðdraganda. Til viðbótar við störf stjórnarformanns hyggst ég taka að mér einhver allt önnur störf innan Grundarheimilanna en ég hef sinnt hingað til. Þeim mun ég sinna í frítíma mínum frá stjórnarformennskunni og til þess að það sé alveg á hreinu mun ég þiggja laun fyrir þau störf samkvæmt þeim launatöxtum sem í gildi eru fyrir þá vinnu. Með lækkuðu starfshlutfalli gefst mér svo kærkominn tími til að sinna ýmsu öðru en vinnunni. Einhverjir í svipuðum sporum og mínum myndu nota tækifærið og nefna samveru með fjölskyldu, en ég ætla að vera heiðarlegur. Fleiri og kannski lengri skotveiðidagar koma fyrst upp í hugann. Ef til vill einhverjir auka golfhringir. Lestur góðra bóka. Langir göngutúrar. En þess utan eyði ég talsverðum tíma, finnst mér alla vega, með fjölskyldunni og þá sérstaklega Öldu eiginkonu minni og á því verður engin breyting. Að minnsta kosti ekki ef ég fæ að ráða. Tel reyndar líklegt að þeim góðu stundum með Öldu og stórum hópi barna, barnabarna og tengdabarna eigi eftir að fjölga frekar en hitt eftir þessa breytingu. ​ Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, verðandi stjórnarformaður Grundarheimilanna ​ ​... lesa meira


Enn af snjallsímum

Á fjölmennum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var fyrr í þessum mánuði kom skýrt fram, bæði hjá heimilismönnum, aðstandendum og all mörgum starfsmönnum að snjallsímanotkun starfsmanna á vinnutíma væri of mikil. Alltof mikil á köflum. Og að við yrðum að bregðast við þessu með einhverjum skýrum hætti. Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Margar hugmyndir komu fram. Banna alveg notkun þessara tækja, takmarka notkun þeirra með einhverjum hætti eða reyna að stýra notkun þeirra þannig að vel sé. Allt tiltölulega erfið markmið að mínu mati og eins og er þá sé ég enga hagstæða lausn. Í málum sem þessum er oft gott að leita eftir sjónarmiðum annarra. Hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar og nota það sem gengur vel. Með pistli þessum óska ég eftir hugmyndum frá ykkur hvernig skynsamlegast væri að leysa þessa ofnotkun á snjallsímum í vinnutíma. Veit vel að það er mitt hlutverk og annarra góðra starfsmanna Grundarheimilanna að finna lausnir sem þessar en ég spyr engu að síður. Ef maður spyr ekki, þá fær maður ekki svör og ef til vill leynist góð lausn einhvers úti hjá ykkur. Efast reyndar ekki um það, þetta vandamál er víðast hvar annars staðar. Verstu hugmyndirnar/tillögurnar eru þær sem koma aldrei fram. ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Stefnumótunarfundur Grundarheimilanna

Stjórn Grundarheimilanna hefur haldið tvo stefnumótunarfundi á ári, yfirleitt í mars og október. Í síðasta pistli sagði ég ykkur frá undirbúningsfundi með heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og nokkrum íbúum íbúða 60+ í Mörkinni. Sá fundur var haldinn til að fá fram sjónarmið notenda þjónustunnar, hvað gengur vel, hvað má betur fara og svo framvegis. Með þeim pistli fylgdi einnig slóð á netkönnun til aðstandenda vegna umönnunarþjónustu og annarra þjónustu sem við veitum á Grundarheimilunum þremur. Það er skemmst frá því að segja að við fengum mjög góð svör úr könnuninni ásamt mörgum góðum ábendingum á fundinum. Þessar niðurstöður ásamt efni úr ýmsum áttum var tekið til umfjöllunar á stórum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var í gær. Á fundinn mættu rúmlega 30 manns sem samanstóð af stjórn Grundarheimilanna, nokkrum millistjórnendum og almennum starfsmönnum í umönnun. Undirbúningsvinna vegna fundarins og úrvinnsla hans er í höndum Arnars Pálssonar frá Arcur, en hann hefur verið með okkur í stefnumótunarvinnu í all mörg ár. Snillingur þar á ferð. Fundurinn tókst vel í alla staði og það verður spennandi að sjá endanlegar niðurstöður úr þeim fimm vinnuhópum sem unnu að verkefnum sem Arnar setti okkur fyrir. Þessar niðurstöður og tillögur hópanna fimm verða svo lagðar fyrir stjórn Grundarheimilanna og í framhaldinu framkvæmdastjórn. Þar verða málin rædd, einhverjar beinar tillögur settar í þann farveg sem telst skynsamlegur og aðrar skoðaðar betur. Þakka ég öllum kærlega fyrir þeirra aðkomu að þessari mikilvægu vinnu, með fundarsetu, svörum á könnun og með hvaða öðrum hætti. Ykkar framlag er mikils virði. Það er hverju fyrirtæki bráðnauðsynlegt að horfa til framtíðar, skoða hvað má gera betur, hvað hefur gengið vel og gera áætlanir til framtíðar varðandi rekstur og þjónustu. Það höfum við á Grundarheimilunum gert um árabil og verður svo áfram. ​ Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ​... lesa meira


Væntanleg stefnumótunarvinna

Stjórn Grundarheimilanna hefur haldið tvo stefnumótunarfundi á ári, yfirleitt í mars og október. Það var að frumkvæði stjórnarformanns Grundarheimilanna Jóhanns J. Ólafssonar að við hófum þessa vinnu með svo markvissum hætti og hefur að mínu mati skilað góðum árangri. Þessir fundir hafa ýmist verið eingöngu með stjórnarmönnum Grundarheimilanna og ráðgjöfum en stundum höfum við útvíkkað hópinn og bætt við hann nokkrum lykilstarfsmönnum heimilanna. Í ár þá verður sá háttur hafður á, að við bjóðum á undirbúningsfund nokkrum heimilismönnum, íbúum íbúðanna og aðstandendum. Sá fundur er haldinn í dag föstudaginn 24. febrúar. Á fundinum leitum við eftir því hvað gengur vel í starfinu og þjónustunni og hvað má fara betur. Til að fá álit sem flestra er auk fundarins efnt til könnunar á meðal aðstandenda og íbúa íbúðanna. Linkurinn er þessi: https://www.surveymonkey.com/r/grund Tekur stutta stund að svara og hentugt að fá svör og viðhorf sem flestra. Niðurstöður undirbúningsfundarins og könnunarinnar verða síðan nýttar til frekari úrvinnslu á stóra stefnumótunardeginum sem er fyrirhugaður um miðjan mars. Á mars fundinum munu auk stjórnar og ráðgjafa mæta nokkrir starfsmenn Grundarheimilanna sem munu marka stefnu þessara heimila og fyrirtækja til næstu ára. Sú stefna er reyndar, eins og áður sagði, skoðuð og eftir atvikum endurskoðuð tvisvar sinnum á ári. Að horfa fram í tímann er bráðnauðsynlegt í öllum fyrirtækjarekstri ásamt því að hlusta á óskir og þarfir þeirra sem búa hjá okkur á Grundarheimilunum þremur eða hjá Íbúðum 60+. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ... lesa meira


Konudagurinn

Konudagurinn er haldinn hátíðlegur næsta sunnudag. Fer ekki í tilurð dagsins en hann er finnst mér svona á pari við bóndadaginn sem er fyrsti dagur í þorra. Á konudegi gefa flestir/sumir karlmenn konum sínum blóm, konfekt eða eitthvað annað fallegt og gott. Það hefur verið allskonar hjá mér í þessu í gegnum árin. Einstaka sinnum blóm, en þó oftar einhver falleg og áhugaverð hönnunarblöð sem minn betri helmingur kann mjög vel að meta. Sjaldan ef nokkkurn tíma konfekt. Við á Grundarheimilunum ákváðum að gefa öllum heimiliskonum heimilanna þriggja rós í tilefni dagsins, var gert á Grund í fyrra og er nú yfirfært á heimilin þrjú. Fallegt. Valentínusardagurinn er svo annar svona konudagur. Haldinn hátíðlegur 14. febrúar ár hvert og er sagður dagur elskenda. Algjört bull finnst mér, amerískur siður sem að seljendur blóma, konfekts og allskonar svona konuvara hafa innleitt og auglýsa grimmt hitt og þetta til að gefa elskunni á þessum degi elskenda. Hef aldrei, og mun aldrei, taka þátt í því rugli. En hugsum hlýtt til okkar ástkvenna og gleðjum þær með einhverjum fallegum hætti á sunnudaginn kemur 😊... lesa meira


Einn einn tveir dagurinn

Þann ellefta febrúar ár hvert er haldinn hátíðlegur einn einn tveir dagurinn. Símanúmer Neyðarlínunnar sem allir landsmenn ættu að þekkja og nota eftir því sem við á, ellefti annar. Við í björgunarsveitunum fáum smáskilaboð frá Neyðarlínunni þegar einhver þarfnast aðstoðar og lögreglu- og sjúkraflutningamenn komast ekki á staðinn. Einnig ef einhver er týndur, fastir bílar á Hellisheiðinni eða við þurfum að loka henni í vondum veðrum. Í fyrra fengum við í Hjálparsveit skáta Hveragerði yfir 50 slík skilaboð. Mikið af óveðursútköllum, föstum bílum, fólki í vandræðum í vondu veðri og svo framvegis. Það er tilvalið að nota þennan dag til að minna okkur öll, sérstaklega ungu börnin, á að þetta númer er það mikilvægasta sem við eigum til. Í allri neyð er afar brýnt að hringja strax. Neyðarverðir Neyðarlínunnar eru fljótir að meta hættustigið og kalla eftir viðeigandi björgum. Þeir sem hringja inn þurfa helst að vera rólegir (veit að það er ekki alltaf hægt í erfiðum aðstæðum), gefa upp nafn, staðsetningu og hvað kom fyrir. Lýsa aðstæðum, veðri ef við á og svo framvegis. Neyðarvörðurinn leiðir síðan símtalið og kemur viðeigandi björgum á staðinn. Notum einn einn tveir, ekki hundraðogtólf, því þau sem yngri eru bera frekar skynbragð á fyrri tölurnar. ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Jákvæðar fréttir úr Ási

Í janúarbyrjun fékk ég gleðitíðindi af væntanlegri byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Ási. Tölvupóst frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, þar sem fram kemur að fjórir aðilar hafa áhuga á að hanna og byggja nýtt 22 rúma hjúkrunarheimili gegnt því gamla, norðan megin við Hverahlíðina. Fyrri hluta síðasta árs fékkst enginn til verksins þannig að umskiptin eru mikil og því ber að fagna. Þessir aðilar fá til ráðstöfunar, ef þannig má að orði komast, ákveðna fjárhæð til að hanna, byggja og skila fullbúnu framangreindu heimili í takt við þá skilalýsingu sem fyrir liggur. Þær hugmyndir sem þessir fjórir skila, verða síðan rýndar af dómnefnd sem velur þá tillögu sem þykir vera best. Tímaáætlunin hljóðar upp á skil á þessu nýja fína húsi þann 11. mars árið 2025. Finnst það heldur bjartsýnt en á sama tíma vona ég svo sannanlega að þetta gangi eftir. Við höfum beðið heldur lengi eftir þessu nýja húsi og það er löngu tímabært að það rísi. Í beinu framhaldi af byggingu nýja heimilisins munum við taka það gamla í gegn. Tveggja manna herbergin verða aflögð og úr þeim útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi. Með þessum breytingum fækkar rýmum á móti þeim nýju og þegar upp verður staðið vænti ég þess að fjöldi hjúkrunarrýma í Ási verði á pari við það sem verið hefur undanfarin ár. Með þessum línum þakka ég hinu opinbera, ríki og Hveragerðisbæ, kærlega fyrir að standa að þessari framkvæmd með þessum hætti. Ríkið greiðir 85% og Hveragerðisbær 15%. Sú mikla bót á húsnæðismálum hjúkrunarheimilisins í Ási er löngu tímabær og verður fagnað með bros á vör og sól í hjarta. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ... lesa meira


Til eftirbreytni

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir auglýstu nýlega fyrir hönd ríkissjóðs eftir 4 til 8 þúsund fermetra húsnæði. Sem ráðgert er að nota fyrir 60 – 120 hjúkrunarsjúklinga á höfuðborgarsvæðinu í sólarhringsþjónustu. Sem sagt dæmigert hjúkrunarheimili. Og augljóst er að nú skal greiða leigu fyrir húsnæðið þar sem talað er um undirritun leigusamnings. Samnings sem verður til allt að 20 ára með möguleika á 10 ára framlengingu. Athygli mína vakti afar stuttur frestur til að skila inn tilboði, oft á hinn veginn hjá hinu opinbera, en þörfin er brýn og því nauðsynlegt að bregðast skjótt við. Með þessari auglýsingu hefur orðið feikn mikil og jákvæð breyting á afstöðu ríkissjóðs/ríkisvaldsins til þess að greiða leigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir hjúkrunarþjónustu og umönnun þeirra sem eldri eru og þurfa á slíku skjóli að halda. Fyrir rétt rúmlega tveimur árum töpuðu Grundar- og Hrafnistuheimilin í Hæstarétti máli sínu á hendur sama framangreinda ríkisvaldi, þess efnis að fá greidda sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem félögin útvega til reksturs hjúkrunarrýma. Þessi auglýsing er því algjör himnasending og staðfestir hér með ríkan vilja ríkisvaldsins til að greiða, og þá væntanlega öllum, ekki bara sumum, sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir öldrunarþjónustu hér á landi. Það eru greinilega bjartari tímar framundan enda batnandi mönnum best að lifa. ​Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna ​... lesa meira