Til aðstandenda

Kæru aðstandendur

Jólin nálgast óðum og þá er að ýmsu að huga hér á Grund eins og á öðrum heimilum. Undanfarið hefur ilmur af nýbökuðum smákökum borist um húsið, deildirnar eru búnar að skreyta hjá sér og jólaljósin lýsa upp skammdegið.
Eins og áður sagði er að mörgu að huga á stóru heimili og eru aðstandendur beðnir að fara með heimilifólki yfir fatnað fyrir jólin, ganga úr skugga um að hann sé hreinn og passi, hengja hann upp á herðatré og merkja til dæmis aðfangadagur / jóladagur. Nauðsynlegt getur verið að hafa fatnað til skiptanna.
Jólafatnaður
Athugið sérstaklega að merkja allan nýjan fatnað með merkitúss með upphafsstöfum og herbergisnúmeri, þetta er nauðsynlegt þar sem búast má við að einhver tími líði þar til nýr fatnaður verður merktur hjá okkur.
Guðsþjónustur um hátíðirnar
Á aðfangadag verður hátíðarguðsþjónusta kl.16.00. Á jóladag kl.14.00.
Á gamlársdag kl.14.00 og nýársdag kl.14.00. Messað verður í hátíðarsal Grundar. Að öllu óbreyttu verður opið fyrir heimilisfólk og skipt í sal eftir deildum og sóttvarnarhólfum. Til vara verður messu sjónvarpað á deildarnar. Því miður getum við ekki boðið gestum að taka þátt í messuhaldi þetta árið.
Fer heimilismaður út um jólin?
Það er ekki óalgengt að heimilismaður fari heim til ástvina yfir jólin. Nauðsynlegt er fyrir starfsfólk að vita hverjir verða ekki heima og þá hvaða daga.
Biðjum við ykkur að láta starfsfólk vita og þau skrá hjá sér hverjir fara og hvenær.
Aðstandendur eru beðnir að aðstoða sitt fólk vegna heimferðar og vinsamlegast athugið að koma tímanlega þar sem stefnt er að því að hátíðarkvöldverður byrji kl.18 á aðfangadag og starfsfólk því upptekið við borðhald á þeim tíma. Hátíðarmatseðill verður sendur til ykkar.
Þá biðjum við ykkur þegar heim er komið að aðstoða ykkar fólk eins og þið treystið ykkur til og að láta starfsfólk vita að viðkomandi er komin heim.
Því miður getum við ekki boðið aðstandendum að borða með okkur yfir hátíðirnar þar sem sóttvarnarreglur mæla með að gestir dvelji ekki í sameiginlegum rýmum heimilisins heldur séu eingöngu inni á herbergjum ástvina sinna. Hinsvegar bendum við aðstandendum á að þeir eru ávallt velkomnir og notalegt getur verið að koma til dæmis eftir hádegismatinn og aðstoða í spariklæðin eða koma eftir kvöldmat á aðfangadagskvöld, njóta samveru með sínum ástvini og ef til vill aðstoða við að taka upp jólapakka.
Hjólastólabílar
Þeir sem þurfa á þjónustu hjólastólabíla að halda er bent á að miklar annir eru á leigubílastöðvunum á milli kl.16-18 á aðfangadag og því getur borgað sig að panta bíl fyrr að deginum. Aðstandendur verða að sækja sitt fólk upp á heimili og aðstoða í leigubílana.
Aðstandendum er bent á að panta hjólastólabíl í tíma.
Jólagjafahugmyndir
Við erum með nokkrar hugmyndir af jólagjöfum ef ykkur vantar t.d. batterískerti, mjúk teppi til að breiða yfir sig, hlý og góð föt en fólk þarf heldur meira af fötum þar sem þvottaþjónustan gengur hægar hér en í heimahúsum. Hlýir sokkar en hægt að fá sokka sem eru stamir undir, góðir inniskór, húðvörur t.d. gott rakakrem og kroppakrem. Eitthvað gott fyrir sælkerana og jafnvel sérríflösku ef svo ber undir. Við getum alltaf geymt og aðstoðað með að gefa staup. Að lokum þá eru grjónahitapokar frábær gjöf og hægt að fá hjá MS setrinu og Krabbameinsfélaginu. Bara muna að merkja allar jólagjafirnar.
Litla hamingjubúðin á Grund er með úrval af jólagjöfum, þið finnið hana á Facebook undir litla hamingjubúðin, einnig er hægt að senda fyrirspurn á verslun@grund.is eða hringja 530-6216 og tala við hana Ester.