Starfsmannastefna

Starfsmannastefna

Starfsmannastefna veitir starfsmanni upplýsingar um ábyrgð og skyldur starfsmanns jafnt sem fyrirtækis og leggur þannig grunn að eðlilegum og raunhæfum væntingum hans til starfs og vinnuveitanda. Stjórn starfsmannamála Grundar er í höndum forstjóra, starfsmannastjóra og hjúkrunarstjórnar.

Markmið Grundar sem öldrunarheimilis er að veita heimilismönnum umhyggju og bestu aðhlynningu sem völ er á, í hreinlegu og heimilislegu umhverfi og því markmiði er bara náð með samvinnu allra sem á heimilinu starfa. Starfsmennirnir á Grund eru mikilvægasta auðlind heimilisins og stöðugleiki í starfsmannahópnum mikilvægur.

Grund er elsta starfandi dvalar- og hjúkrunarheimili, stofnað árið 1922.

Val starfsmanna og ráðningar

Grund leitast við að ráða til sín starfsfólk sem býr yfir þroska, reynslu, ábyrgðartilfinningu, reglusemi og heiðarleika. Trúnaður og traust eru lykilatriði. Grund leggur áherslu á mikilvægi þess að starfsmenn hafi fjölbreytta reynslu og menntun og þeir séu á öllum aldri. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur er einnig hvatt til að bætast í starfsmannahópinn. Ráðningarsamningur er skriflegur og starfslýsing fylgir ráðningarsamningi. Karlar og konur hafa jafnan rétt hvað snertir starf á Grund, starfsframa og samþættingu starfs og fjölskyldulífs.

Kjaramál

Hver starfsmaður gerir ráðningarsamning við heimilið og eru fyrstu þrír mánuðir í starfi jafnan reynslutími en eftir þann tíma er starfsmaður fastráðinn nema annað sé tilgreint í ráðningarsamningi.  Grund greiðir laun samkvæmt kjarasamningum hvers stéttarfélags og fylgir þeim ákvæðum sem settir eru í kjarasamningum og því starfsmönnum bent á að kynna sér vel innihald þeirra. 

Stefna Grundar er að taka í auknu mæli tillit til ábyrgðar, frammistöðu og árangurs við ákvörðun kjara til að geta laðað að og haldið sem hæfustu starfsliði.

Móttaka nýliða

Móttaka nýrra starfsmanna fer fram samkvæmt ákveðnu ferli sem byggir á námskeiði og persónubundinni aðlögun undir handleiðslu reynds starfsmanns og deildarstjóra.  Stuðst er við starfsmannahandbók og gátlista.  Innan þriggja mánaða í starfi fer starfsmaður í viðtal hjá starfsmannastjóra og farið yfir farinn veg. 

Starfslýsingar

Starfslýsingar eru til fyrir flestöll störf á Grund og stefnt er að því að þær séu til fyrir öll störf.    Nýjar starfslýsingar gerir yfirmaður í samráði við þann sem sinnir starfinu.   Starfsmaður fær sína starfslýsingu þegar hann hefur störf og ber að kynna sér og starfa samkvæmt henni

Viðvera og vinnutími

Grund leggur traust sitt á að starfsmenn að þeir mæti á umsömdum tímum og virði vinnutíma.  Hverjum starfsmanni er skylt að stimpla sig þegar mætt er til vinnu og þegar farið er heim.  Ekki er leyfilegt að stimpla kort annarra starfsmanna og varðar það áminningu ef starfsmaður verður uppvís að slíku.  Það er á ábyrgð yfirmanns að fylgjast með mætingum og grípa inn í ef út af bregður.

Framkoma og klæðnaður

Starfsmenn skulu sýna kurteisi og virðingu í allri framkomu við heimilismenn og samstarfsmenn.Grund útvegar starfsmönnum vinnufatnað og er ætlast til að starfsmenn klæðist honum og séu ætíð snyrtilegir við störf sín.

Réttindi, ábyrgð og skyldur

Stjórnendur og starfsmenn sinna þjónustu við heimilismenn og bera ábyrgð á því sameiginlega að vinna samkvæmt markmiðum Grundar sem heimili fyrir aldraða.  Stjórnendur bera ábyrgð á störfum undirmanna sinna og skulu tileinka sér góða stjórnunarhætti, jákvætt viðhorf og virkt upplýsingastreymi.  Markviss endurgjöf og starfshvatning sé haft að leiðarljósi.  Stjórnendur skulu leitast við að hafa samráð við starfsmenn um málefni vinnustaðarins er þá snertir og stuðla að sátt þar um.  Þeir skulu og gera starfsmönnum kleift að þroskast í starfi og stuðla þannig að aukinni starfsánægju.  Ánægður og samviskusamur starfsmaður stuðlar að eigin starfsöryggi.  Starfsmenn skulu jafnframt leitast við að laga sig að breyttum aðstæðum og kröfum sem kunna að vera gerðar til þeirra.

Vinnuvernd og heilsa

Grund hefur það markmið að vinnuaðstaða og aðbúnaður sé eins góður og mögulegt er miðað við það húsnæði sem heimilið býr við.  Grund sér til þess að starfsmenn hafi aðgang að viðeigandi hjálpartækjum og ætlast til þess að þau séu notuð.  Starfsmönnum ber að huga að heilsu sinni og vellíðan og hefur Grund sett ákveðna heilsustefnu til að aðstoða starfsmenn í þessu. Grund styrkir starfsmenn til íþróttaiðkunar og nemur styrkurinn 10.000 krónum á ári miðað við fullt starf gegn framvísun kvittunar. Starfsmaður skal hafa unnið í sex mánuði áður en hann sækir um styrk.

Notkun ávanabindandi efna

Notkun vímuefna við störf er óheimil með öllu og varðar við áminningu eða starfmissi.  Hafi starfsmaður vímuefnavandamál veitir Grund leiðbeiningar og aðstoð við úrlausn þess. 

Samskipti á vinnustað

Grund vill stuðla að góðum starfsanda sem byggir á virðingu, umburðarlyndi og jákvæðu viðmóti.  Einelti og kynferðisleg áreitni eða hvers kyns ógnun eða ögrun á vinnustað verður ekki umborin og varðar við starfsmissi.  Verði starfsmenn varir við slíkt ber að tilkynna það trúnaðarmanni, deildarstjóra og eða starfsmannastjóra.

Siðareglur

Starfsmönnum ber að fylgja siðareglum sinna starfstétta en að auki hefur Grund ákveðnar siðareglur sem öllum starfsmönnum ber að kynna sér og halda í heiðri.

1.       Við berum virðingu fyrir skjólstæðingum okkar og samstarfsmönnum 

2.       Við sýnum trúnað og þagmælsku um það sem við reynum í starfi. 

3.       Við tökum ekki við gjöfum og peningum frá skjólstæðingum okkar. 

4.       Við tilkynnum yfirmönnum hvers kyns brot á þessum reglum sem geta varðað áminngu.

Jafnrétti kynjanna

Karlar og konur hafa jafnan rétt innan stofnunar hvað snertir einstaka störf, starfsframa og samþættingu starfs og fjölskylulífs, umönnun veikra barna o.s.frv.

Jafnvægi einkalífs og vinnu

Grund styður starfsmenn til samræmingar starfs og fjölskyldulífs með möguleika á sveigjanlegum vinnutíma þar sem það á við og hlutastörfum.  Tekið er tillit til aðstæðna starfsmanna og komið til móts við þá eftir fremsta megni.  Grund hefur ávallt verið annt um velferð starfsfólks síns og leitast við að veita því aðstoð og stuðning við erfiðar aðstæður.

Skipulag

Grund keppir að því að skapa traust milli starfsmanna innbyrðis og milli starfsmanna og stjórnenda.  Starfsmaður er hvattur til að kynna sér stjórnskipulag Grundar.  Skipurit og starfslýsingar skýra boðleiðir og einfalda samskipti.  Starfsmannastjóri sem jafnframt er yfirmaður launadeildar er ávallt nærtækur fyrir starfsmenn.  Þá er hægt að fá viðtal hjá forstjóra og stjórnarformanni Grundar ef starfsmaður óskar þess og er gott aðgengi að yfirstjórn eitt af markmiðum Grundar.

Sálgæsla starfsmanna

Grund ber umhyggju fyrir líðan starfsmanna og geta þeir leitað til heimilisprests eða djákna óski þeir þess.

Fræðsla og símenntun

Starfsmönnum gefst kostur á að sækja námskeið og fræðslu innan stofnunar sem utan til að auka þekkingu sína og faglega hæfni og þróast í starfi.  Grund tekur þátt í greiðslu námskeiðskostnaðar en jafnframt er ætlast til að þeir sem hafa aðgang að starfsmenntunarsjóðum sæki um styrki þar.  Starfsmenn eru hvattir til að afla sér þekkingar og miðla til annarra samstarfsmanna.  Símenntun er jafnt á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns.       

Starfsmannasamtöl

Grund ætlast til að hver starfsmaður fái notið hæfileika sína og lögð verði áhersla á faglega þróun starfsmanna með það að leiðarljósi að þeir geti betur sinnt starfi sínu, sjálfum sér og heimilinu til hagsbóta. Starfsmannasamtöl eru árleg.

Starfsmannafélag og félagslíf

Starfsmannafélag er starfandi við heimilið og er tilgangur þess að efla kynni félagsmanna og stuðla að hagsmunum þeirra.  Grund skipuleggur að auki ýmsar uppákomur ásamt árlegu starfsmannakvöldi þar sem veittar eru viðurkenningar fyrir starfsaldur.  Grund hefur einnig sumarhús til afnota fyrir starfsmenn endurgjaldslaust.

Aðstandenda- og velunarafélag

Félag þetta hefur það markmið að vinna að samhug og samvinnu meðal starfsfólks og aðstandenda heimilisfólks með kynnum, fræðslu og greiðu upplýsingaflæði.  Starfsmenn eru að sjálfsögðu velkomnir í félagið sem velunarar Grundar.

Heimilispóstur og upplýsingar um heimilið

Grund gefur út tímaritið Heimilispóstinn fjórum sinnum á ári og rafrænt fréttabréf til aðstandenda og starfsfólk í hverjum mánuði. Þá er hægt að nálgast ýmsar upplýsingar um innra starf á starfsmannavef Grundar. Á vefsíðunni www.grund.is er einnig hægt að nálgast fréttir úr starfi Grundar en síðan er uppfærð reglulega. Mánaðarlega er tekið stutt viðtal við starfsmann þar sem hann er kynntur fyrir samstarfsfélögum sínum og heimilisfólki.

Sveigjanleg starfslok og starfslokaviðtöl

Starfsmönnum gefst kostur á að minnka við sig vinnu þegar þeir nálgast eftirlaunaaldur.  Starfslokaviðtöl standa starfsmönnum til boða.  Hafi starfsmenn hug á að vinna áfram eftir sjötugt og ef áhugi er á því af hálfu Grundar er gerður samningur um lausráðningu og sá samningur  endurskoðaður á hálfs árs fresti.

Gjafir

Starfsmenn mega ekki þiggja neinar gjafir frá heimilisfólki nema að höfðu samráði við sinn yfirmann. Fari gjöfin yfir 5.000 króna andvirði þarf að taka það sérstaklega fyrir. Starfsmenn mega ekki undir nokkrum kringumstæðum þiggja peningagjafir frá heimilisfólki. Sömu reglur gilda líka um yfirmenn gagnvart heimilisfólki og starfsfólki.