Eden

Eden

Mörk hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut 66  hlaut í nóvember 2017 alþjóðlega viðurkenningu sem Eden heimili og er það fyrsta heimilið sunnan heiða sem hlýtur þessa alþjóðlegu viðurkenningu. Vottunin gildir í tvö ár í senn og þurfti heimilið að standast ítarlega úttekt á ýmsum þáttum starfseminnar til að fá þennan gæðastimpil.

Eden Alternative eru alþjóðleg samtök sem hafa að markmiði að breyta viðhorfi og menningu í tengslum við umönnun aldraðra. Að hverfa frá stofnanavæddri menningu til eflandi og hvetjandi menningar sem er hlýleg og mannúðleg.

Upphafið

Fyrir um það bil aldarfjórðungi hóf læknirinn Bill Thomas að vinna sem yfirlæknir á hjúkrunarheimili í Bandaríkjunum en hann hafði fram að því starfað á bráðadeild spítala.

Hann sinnti sínu starfi af alúð og einn daginn þegar hann var á stofugangi urðu straumhvörf í þeim hugmyndum sem hann hafði um hjúkrunarheimili.   Hann settist niður hjá roskinni konu sem var rúmföst og spurði hana hvernig henni liði. Hún var lítil og fíngerð en með stór augu. Hún hikaði andartak en horfði svo beint í augu hans og sagði: Ég er fjarska einmana. Við því átti læknirinn engin ráð og engin lyf.  Orð gömlu konunnar fylgdu honum og einn daginn ákvað hann að setjast niður á setustofu öldrunarheimilisins og vera þar þegar hlé gafst frá vinnu. Reyna á sjálfum sér hvernig það væri að vera heimilismaður á hjúkrunarheimili.  Hann komst að því að þrennt var áberandi hjá heimilisfólkinu fyrir utan alla krankleika. Þetta voru einmanaleiki, leiði og vanmáttarkennd og það hafa orðið lykilorð í Eden hugmyndafræðinni því kjarninn er að sporna við leiða, einmanaleika og vanmáttarkennd. Bill Thomas fékk tækifæri til að stofna heimiliskömmu eftir þennan eftirminnilega atburð og hefur síðan verið að þróa hugmyndafræðina ásamt konu sinni Jude. Heimilin sem fylgja hugmyndafræðinniskipta núroðið hundruðum, í Bandaríkjunum, Ástralíu, Asíu og víða um Evrópu.

Eden í Mörk

Hjúkrunarheimilið Mörk er fyrsta heimilið í Reykjavík sem ákveður að fylgja Eden hugmyndafræðinni.

Lögð er áhersla á að heimilismenn haldi sjálfræði sínu þegar þeir flytja á heimilið og geti lifað lífinu með reisn. Við sem störfum reynum að hafa hugfast að hér störfum við inni á heimili fólks en það dvelur ekki á okkar vinnustað.

Aðstandendur eru ávallt velkomnir og hvattir til að koma sem oftast og leggja af mörkum, taka þátt í daglegu lífi og vera virkir inni á heimilinu þar sem þeirra aðstandandi býr.  Í samráði við heimilismenn og aðstandendur er reynt að finna út hvaða siði og venjur fólk vill halda í þegar það flytur hingað í Mörk. Eden hjálparar svokallaðir eru börn, gæludýr og lifandi plöntur. Hér hjá okkur í húsinu býr köttur og hundar koma daglega í hús með starfsfólki. Börn koma vikulega bæði frá leikskóla í nágrenni en einnig úr skólum og á sumrin er lögð áhersla á ræktun bæði á svölum og í garði.  Allir heimilismenn hafa sitt rúmgóða herbergi með sér snyrtingu og þeir koma með sín húsgögn í þær vistarverur, rúmföt ef þeir kjósa, rúmteppi, gardínur og svo framvegis.

Markmið

Það má segja að markmiðið sé að breyta viðhorfi og menningu og skapa heimili þar sem fólki líður vel og það er styrkt og eflt í að njóta eins og mögulegt er og markvisst er unnið að því að útrýma vanmáttarkennd, einmanaleika og leiða. VIð leitumst við að skapa heimili þar sem lífið snýst um náin og falleg samskipti, virðingu, umhyggju af kærleika og að heimilismenn haldi sjálfsvirðingu sinni.

Hér eru áhugaverðar vefsíður fyrir þá sem vilja kynna sér Eden hugmyndafræðina nánar:

http://www.edeniceland.org/

www.edenalt.org,

http://www.eden-alternative.co.uk og

http://www.edendenmark.dk/