Fréttir

Tónleikar með Stórsveit Íslands

Síðasta miðvikudagskvöld voru tónleikar fyrir íbúa 60+ með Stórsveit Íslands. Stórsveit Íslands ásamt söngvurum léku íslenskt bítl (frá árunum 1962-1977). Lögin voru útsett af Þórði Baldurssyni og voru söngvararnir Vigga Ásgeirsdóttir, Ari Jónsson og Davíð Ólafsson. Á tónleikunum fengu íbúar að heyra tónlist frá upphafsárum íslenskrar bítlatónlistar í stórsveita stíl. Þökkum við kærlega fyrir frábæra kvöldstund.

Bleiki dagurinn Mörk 60+

Haldið var upp á bleika daginn hérna í Mörk síðasta föstudag. Íbúar og starfsmenn voru hvattir til að klæðast bleiku eða bera bleiku slaufuna til að sýna konum sem greinst hafa með krabbamein stuðning og samstöðu. Það var gaman að sjá hve margir tóku þátt í deginum.

Spilað í Mörk 60+

Í tómstundaherbergjum okkar í Mörk hittist fólk í hverri viku og spilar. Móinn er tómstundarými með spilaborðum og þar er skipulögð spila dagskrá í hverri viku. Á mánudögum kl.13:00 er spiluð vist, á miðvikudögum kl.13:00 er canasta spiluð og á föstudögum kl. 13:00 er bridds spiluð. Allir íbúar sem hafa áhuga eru velkomnir í spilin.

Prjónahópur - íbúðir 60+

Það er margt um að vera hérna í Mörk. Á fimmtudögum kl. 13:30 hittast þeir íbúar sem hafa áhuga á prjónaskap eða öðrum hannyrðum í Mýrinni. Það er hellt upp á kaffi, prjónað og spjallað um allt milli himins og jarðar. Notaleg stund og eru allir íbúar sem hafa áhuga á velkomnir.

Fiskidagurinn litli 2023 - Íbúar 60+

Fiskidagurinn litli var haldinn hátíðlegur í gær hér í Mörk. Er þetta í sjötta sinn sem hátíðin fer fram og þökkum við forsvarsfólki Fiskidagsins mikla á Dalvík fyrir stuðninginn og áhugann. Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, setti hátíðina. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík flutti vináttukveðju, Friðrik fimmti yfirkokkur matseðils Fiskidagsins mikla á Dalvík fór yfir matseðilinn og tónlistarmaðurinn KK söng nokkur vel valin lög. Dalvíkingar, nærsveitungar og velunnarar bjúggu til vináttubönd til að dreifa á hátíðinni í ár. Júlíus kom með slík armbönd og dreifði til íbúa til að undirstrika vináttuna við Mörkina. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna. Hlökkum til Fiskidagsins litla á næsta ári.

Smurbrauð getur verið lítið listaverk

Hún mætir hálftíu á morgnana á Kaffi Mörk og fer að undirbúa daginn. Lára Magnea Jónsdóttir er fjölhæf kona og á milli þess sem hún sést skjótast fram og til baka á kaffihúsinu vinnur hún við sitthvað annað. Oftast er það menningararfurinn sem á hug hennar og þá helst íslenskur útsaumur og gömul íslensk mynstur. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir fékk sér cappucino með Láru og forvitnaðist um þessa orkumiklu konu sem tekur á móti gestum kaffihússins í Mörk.

Púttvöllurinn opinn

Þar kom að því. Það er búið að opna púttvöllinn okkar hér í Mörk. Í tilefni af því hittist pútthópurinn áðan og tók saman fyrsta pútt ársins. Allir íbúar eru velkomnir alla daga en venjan er að hittast á þriðjudögum kl.14:30 við garðskálann og taka saman pútt, að því loknu fer hópurinn í Kaffi Mörk og fær sér veitingar.

Sumarblómin komin

Sumarblómin komu til okkar í Mörkina í dag beint frá gróðurhúsunum okkar í Ási. Stúlkurnar úr ræstingunni tóku það að sér að planta þeim í beðin okkar. Alltaf jafn gaman að sjá beðin svona blómleg. Nú má sumarið koma.

Vinir í sviðaveislu

Það er viss kjarni í Íbúðum 60+ sem kemur alltaf síðdegis í heilsulindina og fær sér hressingu um leið og spjallað er um heimsmálin og lífið og tilveruna. Sumir skreppa áður í sund, skella sér í gufu eða líkamsrækt en aðrir koma bara til að setjast niður og spjalla við vini. Þessi hópur hittist í síðustu viku og borðaði saman svið og rófustöppu. "Dásamlegur félagsskapur og ekki skemmdu þessar frábæru veitingar fyrir", segir Laila Margrét Arnþórsdóttir sem er hjartað í heilsulind Markar en hún rekur heilsulindina ásamt Daða Hreinssyni

Breytingar við stjórnvöl Grundarheimilanna

Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.