Fréttir

Afhenti heimilismönnum afmælisgjöf frá Grund

Í tilefni aldarafmælis Grundar var gefið út afmælisrit um heimilið, saga Grundar í 100 ár. Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, fór um heimilið og færði heimilismönnum bókina að gjöf auka borðdagatals með gömlum myndum frá Grund. Gísli Páll segir þessar heimsóknir hafa veitt sér gleði og hann er mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til að spjalla við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Hann segir að margir hafi verið afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Gísli Páll segir að það hafi verið notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel á heimilunum. Það voru feðginin sr. Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R Guðmundsdóttir sem rituðu bókina, Guðmundur Óskar sá um að rita 75 ára sögu heimilisins fyrir aldarfjórðungi og síðan bætti dóttir hans Guðbjörg við 25 árum svo úr varð 100 ára saga heimilisins.

Kaffisamsæti í betri stofunni

Það var notalegt kaffisamsætið sem Ísafold og Ásta héldu á fjórðu hæðinni hér á Grund í vikunni. Betri stofan á Vegamótum hefur fengið smá andlitslyftingu svo það er um að gera að njóta hennar í góðra vina hópi.

Að gefa bók

Eins og hefur áður komið fram á þessum vettvangi gáfum við út 100 ára sögu Grundar í tilefni af aldarafmæli heimilisins nú í október síðastliðnum. Framúrskarandi vel rituð af þeim feðginum Guðmundi Óskari Ólafssyni (fyrstu 75 árin) og svo dóttur hans Guðbjörgu Guðmundsdóttur (síðustu 25 árin). Bókin var prentuð í nokkur þúsund eintökum og strax ákveðið að gefa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna eintak. Starfsmenn hafa sótt sér eintak á undanförnum dögum og stendur hún þeim endurgjaldslaus til boða í verslunum Grundarheimilanna til áramóta. Ég aftur á móti ákvað að færa öllum heimilismönnunum Grundarheimilanna þriggja bókina ásamt gamadags borðdagatali með myndum úr starfsemi Grundar á fyrri hluta og upp úr miðri síðustu öld. Sú gjafaferð hefur staðið yfir undanfarna daga og hefur gefið mér mikið. Ég er ekki spjalltýpan, að rölta um heimilin þrjú, setjast niður með heimilisfólki og taka það tali. Ég þarf að hafa „tilgang“ með spjallinu, ef þannig má að orði komast. Kannski finnst lesendum þetta skrýtið, en svona er ég bara. Mamma var, og er reyndar enn, þessi góða manneskja sem röltir um Grund og spjallar og tekur kaffibolla með heimilis- og starfsfólki. Sem er bara fínt. Ég var því mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til spjalls við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Margir voru afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Það var notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel hjá okkur. Við erum sennilega að gera eitthvað rétt. Nokkrir spurðu hvort þau mættu taka í hendina á mér og þakka fyrir. Upplifði mig eitt augnablik eins og „fræga rokkstjörnu“, sem ég er alls ekki en fannst þetta nokkuð skondið. Ein heimiliskona bað mig um áritun, sem mér þótti mjög vænt um. Ef aðstandendur eða einhverjir aðrir vilja eintak af bókinni þá er það sjálfsagt mál. Datt í hug að leggja til, að þeir sem myndu þiggja eintak, aðrir en heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna, myndu leggja eins og þrjú þúsund krónur inn á eitthvað það líknarfélag sem þeim hugnast. Eitthvað sem afi minn Gísli Sigurbjörnsson hefði líklega gert við tímamót sem þessi og ég er sennilega að stela hugmyndinni frá honum. Þannig að ef einhver vill eintak, sendið línu á mig eða grund@grund.is, bókin verður send til ykkar og þið ráðið þá hvert þrjúþúsundkallinn fer. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Takk

Í síðustu viku héldum við á Grundarheimilunum upp á 100 ára afmæli Grundar sem var þann 29. október. Með margskonar viðburðum í þeirri viku en auk þess höfðum við til dæmis boðið heimilismönnum upp á tónleika með Guðrúnu Gunnars, Jögvan Hansen og Siggu Beinteins og gefið öllum starfsmönnum heimilanna þriggja vandaða flíspeysu frá 66° norður. Þá erum við þessa dagana að færa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna 100 ára sögu heimilisins sem Guðbjörg Guðmundsdóttir starfsmaður á skrifstofu ritaði. Í sjálfri afmælisvikunni voru haldin kaffisamsæti með heimilisfólkinu sem bauð aðstandenda með sér í boðið. Reyndar boðið upp á heitt súkkulaði, ekki kaffi. Og dýrindis bakkelsi með rjóma og tilheyrandi. Ég náði að flytja stutt ávarp í öllum boðunum, alls 18 sinnum. Þetta voru skemmtilegar og hátíðlegar samkomur. Allir brosandi, ánægðir og þakklátir fyrir að við skyldum halda upp á afmælið með þessum hætti. Á sjálfan afmælisdaginn, síðastliðinn laugardag, var boð á Grund fyrir boðsgesti. Afar vel heppnað, góð mæting, fínar og mátulega langar ræður og góður andi meðal gestanna. Fengum góðar gjafir, styttu, málverk, umtalsverða peningagjöf, söngskemmtun fyrir heimilismenn og blómvendi. Og um kvöldið var svo öllum starfsmönnum boðið til glæsilegrar árshátíðar og mættu tæplega 600 manns. Það var svo gaman að sjá og upplifa gleði, þakklæti og stuð í mannskapnum. Með pistli þessum vil ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu stórkostlega afmæli okkar, bæði með vönduðum undirbúningi sínum og ekki síður þeim sem heimsóttu okkur í kaffiboðin, laugardagsboðið og djömmuðu með okkur á árshátíðinni. Einnig hjartans þakkir fyrir allar góðar gjafir og hlý orð í okkar garð, sem hafa verið fjölmörg undanfarið, bæði í tölvupósti, símtölum, við hitting og í raun við hvaða tækifæri sem gafst. Ég hefði aldrei trúað því að þetta yrði svona skemmtileg og fjölbreytt afmælisvika. Vissulega búið að undirbúa hana vel en ég var ekki alveg rólegur vikuna þar á undan. Óþarfa áhyggjur og svefnleysi til dæmis vegna þess að ég hélt kannski að við kæmumst ekki öll fyrir í hátíðarsalnum í boðinu á laugardeginum. Sá þann dag að það var þvílík þvæla í mér. Takk fyrir okkur 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Heimilismenn buðu aðstandendum í afmæliskaffi

Alla síðustu viku buðu heimilismenn aðstandendum í afmæliskaffi til að halda upp á aldarafmæli heimilisins. Á mánudag var afmæliskaffi í Mörk, á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag á Grund og á föstudag í Ási. Það voru dúkuð borð, fánar og blóm og boðið upp á heitt súkkulaði og allskyns meðlæti. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna flutti ræðu og á Grund tók Grundarkórinn lagið alla dagana þrjá og Sigrún Erla Grétarsdóttir söng nokkur lög við undirleik Kristófers H. Gíslasonar. Notaleg samverustund heimilismanna með sínu fólki á þessum stóru tímamótum Grundar. Ljósmyndir tók Viktoría Sól Birgisdóttir.

100 ára afmæli Grundar fagnað

Það ríkti góð stemning í hátíðarsal Grundar þann 29. október síðastliðinn þegar heimilið fagnaði 100 ára afmæli. Boðsgestir streymdu í salinn um miðjan dag til að heiðra heimilið, fluttu ávörp og komu færandi hendi með blóm og aðrar góðar gjafir. Móttakan hófst með ávarpi forseta Íslands, þá ræðu Jóhanns J. Ólafssonar stjórnarformanns Grundar, ræðu Gísla Páls Pálssonar forstjóra Grundarheimilanna og ræðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Gissur Páll Gissurarson söng nokkur lög og endaði á afmælissöngnum. Þá veitti Öldrunarráð Íslands styrk sem ráiðið veitir árlega í nafni Gísla Sigurbjörnssonar fyrrum forstjóra Grundar og formaður Sjómannadagsráðs Ariel Pétursson færði afmælisbarninu táknræna styttu og Dirk Jarré formaður Eurag, evrópskra öldrunarsamtaka færði heimilinu listaverk.

Bleik Grundarheimili

Öll Grundarheimilin skarta bleiku í ár, í afmælismánuði Grundar sem fagnar aldarafmæli á morgun, laugardaginn 29. október.

100 ára afmæli Grundar

Á morgun laugardaginn 29. október á Grund 100 ára afmæli. Upphafið má rekja til líknarfélagsins Samverjans sem Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason langafi minn hafði forgöngu um ásamt fleiri góðum mönnum. Félagið hélt skemmtisamkomur og safnaði þannig fé auk þess að fá gjafafé frá Reykvíkingum. Býlið Grund við Sauðagerðistún var keypt og tekið í notkun þann 29. október árið 1922. Grund við Hringbraut var síðan byggð og tekin í notkun í september 1930. Haraldur Sigurðsson ráðsmaður Grundar féll frá haustið 1934 eftir skammvinn veikindi og í hans stað var ráðinn tímabundið afi minn Gísli Sigurbjörnsson til að stýra Grund. Það gerði hann í 60 ár en hann féll frá í janúar 1994. Mjög löng tímabundin ráðning. Móðir mín Guðrún Birna tók við Grund og var forstjóri heimilisins í 25 ár eða til 1. júlí 2019. Grund var lengi eina hjúkrunarheimili landsins og leiðandi í slíkri þjónustu um áratugaskeið. Afi heitinn byggði Grund upp, stofnaði til elliheimilisrekstrar í Hveragerði árið 1952 í samstarfi við Árnesinga og byggði við og bætti þar í bæ auk þess að auka verulega við húsakost við Hringbrautina. Grundarheimilin í dag eru þrjú, Grund, Ás og Mörk. Starfsemi í Mörkinni hófst árið 2010 þegar við tókum að okkur rekstur 113 rúma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 66 auk þess að kaupa af Landsbankanum 78 íbúðir og leigja þær út til 60 ára og eldri. Sú starfsemi stækkaði verulega að umfangi árið 2018 þegar við byggðum 74 slíkar íbúðir til viðbótar þeim sem fyrir eru. Á Grund stendur til að halda áfram breytingum herbergja þannig að allir heimilismenn eigi kost á eins manns herbergi með sér baðherbergi. Þá stendur til að byggja kaffihús í suðurgarði Grundar þar sem gengið verður út frá núverandi matsal starfsmanna. Hægt verður að ganga út úr kaffihúsinu út í garð þar sem verða bekkir, runnar, blóm og tré og hægt að eiga þar notalega stund með kaffi og kleinu eða léttvínsglas. Framtíð Grundarheimilanna er björt. Það er góður bisniss að sinna öldrunarþjónustu hér á landi. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við okkur blasa óþrjótandi tækifæri til að veita margskonar öldrunarþjónustu, jafnt á vegum hins opinbera sem og á einkamarkaði. Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með árin eitt hundrað. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Heilsustyrkur

Grundarheimilin vilja stuðla að bættri heilsu starfsmanna með greiðsluþátttöku í heilsurækt og hreyfingu þeirra. Grundarheimilin greiða öllum starfsmönnum heilsustyrk eftir ákveðnum reglum þar sem hverjum starfsmanni býðst styrkur upp á 20.000 krónur á ári. Til að fá þennan styrk þurfa starfsmenn að skila inn kvittun vegna aðgangs að líkamsrækt, sundlaug eða einhverri annarri heilsueflandi hreyfingu. Þessum kvittunum þarf að skila til launafulltrúa á netfangið laun@grund.is. Einnig er hægt að hafa samband við mannauðsdeildina á mannaudur@grund.is ef einhverjar spurningar vakna. Styrkurinn er fyrst veittur eftir sex mánuði í starfi og er veittur í samræmi við starfshlutfall. Styrkinn er einnig hægt að nýta til að greiða fyrir sálfræðiþjónustu og hafa nokkrir starfsmenn þegar nýtt sér þennan nýja möguleika, sem er vel. Starfsmönnum sem alla jafna notast við almenningssamgöngur til og frá vinnu býðst að láta styrkinn ganga upp í strætókort. Ég hvet alla starfsmenn Grundarheimilanna til að nýta sér þennan styrk og sækja árlega þessar 20 þúsund krónur sem bíða. Langflestir stunda einhverskonar hreyfingu sem kostar peninga og þetta er kjörin leið til að minnka þann kostnað. Hreyfum okkur, styrkjum heilsuna og látum okkur líða vel. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Fólk og fjársjóðir

Thelma Hafþórsdóttir Byrd er iðjuþjálfi í Mörk og hér skrifar hún fallega hugleiðingu um fólk og fjársjóði.