frétt

Kæru aðstandendur

Þegar við lendum í áföllum eða göngum í gegnum erfið tímabil í lífinu undrumst við það stundum að þrátt fyrir allt skuli sólin koma upp næsta morgun, fuglarnir haldi áfram að syngja og gangverk náttúrunnar tifi áfram.  Ég neita því ekki að hafa brugðið mjög við þær fréttir sem við fengum um síðustu helgi, frá nágrönnum okkar á Sólvöllum, jafnvel fyllst hálfgerðri örvæntingu um stund.  Þarna sjáum við hve viðkvæm staðan er og hversu lítið má útaf bera. 

Við erum öll að gera okkar besta og hvern einasta dag erum við að leita leiða til þess að minnka líkurnar smiti.  Við finnum það öll að líðan okkar er ekki sú sama og hún var í „fyrstu bylgjunni“.  Þá vorum við full af orku og krafti og ætluðum okkur að sigra þessa veiru hratt og vel og gerðum það, tímabundið.  Nú vitum við meira og vitum að þessu er hvergi nærri lokið.  Við þurfum að halda út, það gengur ekki að gefast upp og auðvitað ætlum við okkur það og að sigrast á þessari veiru. 

Þegar dimmir yfir eins og gerðist um og eftir síðustu helgi er dásamlegt að vita að þrátt fyrir allt kemur sólin upp næsta morgun og þá fyllumst við krafti á ný og tökumst í sameiningu á við verkefni dagsins.  Við í Ási höfum gert ýmislegt þessa viku til þess að létta okkur lundina, heimilisfólk hefur notið þess að fá girnilega ostabakka að kveldi.  Við tókum 2 daga í að halda uppá afmæli Grundar, annan daginn fengum við afmæliskringlu, rjómatertu og súkkulaði með kaffinu. Hinn daginn fengum við nautalund með bernaise sósu og heimalagaðan ís á eftir í hádeginu.  Í kvöld á svo að halda októberfest með léttum bjór og pretzel kringlum. 

Framundan er svo Hrekkjavaka og að sjálfsögðu höldum við uppá hana og svo má ekki gleyma Þakkargjörðarhátíðinni í nóvember.  Við nýtum sko öll tækifæri sem hugsast geta til þess að gera okkur glaðan dag og auðga líf heimilismanna á þessum erfiðu tímum. 

Við þurfum því miður að halda áfram með þær heimsóknartakmarkanir sem verið hafa í gildi frá 6. október.    Við biðjum heimilisfólk einnig um að fara ekki út af heimilinu, í verslanir, heimsóknir eða annað.  Allar undanþágur frá þessum reglum þarf að bera undir deildarstjóra hjúkrunar.  Við höfðum auðvitað vonað að nú gætum við létt á þessum reglum en ég held að þið skiljið öll að staðan leyfir okkur það ekki. Haldið endilega áfram að hringja, skæpa, feistæma og guða á glugga. Ef fólkið ykkar vanhagar um eitthvað megið þið endilega vera því innan handar og koma sendingum til okkar og við komum þeim til skila.  Dagdvölin hjá okkur í Bæjarási verður áfram lokuð, við hringjum þó reglulega í fólkið okkar og heyrum hvernig því líður.

Takk fyrir samvinnuna,

Birna Sif