frétt

Páskakveðja til aðstandenda

 Um síðustu helgi geisaði óveður á landinu og fundum við heldur betur fyrir því hér í Hveragerði.  Á laugardagskvöld lenti starfsfólk í miklum hremmingum á leið sinni til vinnu, einhverjir komust þó að endingu og aðrir ekki.  Starfsfólk á kvöldvakt komst ekki heim, svo það stóð vaktina áfram.  Á sunnudagsmorgni er ljóst að það er allt kolófært innanbæjar í Hveragerði og hvað þá til næstu bæja enda veðrið algerlega glórulaust.

Nokkrir starfsmenn ákváðu þó að láta ekkert stoppa sig, klæddu sig upp og lögðu af stað móti hríðinni, klofuðu skaflana sem sumir voru mannhæðarháir og skriðu jafnvel þegar verst lét.  Þetta voru meðal annars allir hjúkrunardeildarstjórarnir þrír sem mættu á staðinn óumbeðnar og stóðu vaktina fram á kvöld.  Það var fljótlega ljóst að björgunarsveitin gæti lítið gert í að aðstoða okkur þarna um morguninn enda komust þeir ekki einu sinni um bæinn á sínum bílum og voru útkeyrðir eftir erfiða nótt.  Þá barst hjálp úr óvæntri átt, snjómoksturmenn bæjarins voru komnir á stjá og það voru þeir sem keyrðu um bæinn og sóttu starfsfólk á traktórsgröfum. 

Starfsmenn unnu svo þrekvirki þennan dag þar sem þeir börðust móti hríðinni, klofuðu skafla, mokuðu sig inn hjá fólki til að færa þeim mat, lyf og veita þjónustu og andlegan stuðning.  Björgunarsveitin og snjómokstursmenn voru okkur svo innan handar fram á kvöld að keyra fólk í og úr vinnu.  Ég er óendanlega þakklát öllu mínu fólki, þeim sem mættu hér á sína vakt þrátt fyrir að það væri nánast ógerlegt og eins þeim sem buðust til að vinna þegar aðrir gátu ekki komist á staðinn.  Þetta er fólkið sem getur ekki verið heima, hvorki þegar óveður eða farsótt geisar.  Ég veit að margir höfðu það bara notalegt undir teppi með kertaljós þennan dag en það gátum við því miður ekki öll.  Snjómokstursmönnum, sem svo sannarlega voru menn dagsins, og björgunarsveitinni þakka ég líka fyrir.

Nú leikur veðrið hins vegar við okkur, sól skín í heiði og bræðir smátt og smátt snjóskaflana.  Páskarnir eru framundan, veiruskrattinn sem betur fer enn ekki látið sjá sig hér innanhúss en nú reynir heldur betur á okkur öll. 

Ég veit að þið saknið þess að geta ekki heimsótt fólkið ykkar eða fengið það til ykkar um hátíðirnar.  Það eina sem hjálpar okkur í þessu ástandi er að við erum öll á sama báti.  Ekkert okkar sér fram á páska í faðmi fjölskyldu eða vina, við höldum okkur bara heima eða í vinnunni og gerum gott úr stöðunni.  Þökkum fyrir það sem við höfum. 

Ég veit að hér mun ekki væsa um neinn um páskana, heimilisfólk hefur hvert annað, starfsfólk leggur sig allt fram um að glæða dagana lífi og gleði.  Eldhúsið framreiðir veislumat sem enginn verður svikinn af.  Síðustu daga hafa heimilismenn á Hjúkrunarheimilinu og Bæjarási notið þess að gæla við litla páskaunga sem fengu að vera hér í vist.  Það gladdi nú heldur betur marga. 

Við höldum ótrauð áfram, gefumst ekki upp, gefum ekkert eftir þó svo páskahátíðin sé framundan.  Við ætlum ekki að slaka neitt á í vörninni og hleypa veiruskrattanum innfyrir. 

Páskakveðjur úr Ási,

Birna Sif.