frétt

Kæru aðstandendur

Við erum auðvitað öll harmi slegin vegna andláts kærra hjóna hér í Hveragerði sem við þekktum mörg hver vel.  Þetta segir okkur hins vegar að þessi sjúkdómur er dauðans alvara og styrkir okkur enn frekar í þeim aðgerðum sem við höfum gripið til og miða að því að hindra að smit komi upp meðal okkar heimilismanna.  Nú erum við sennilega að sigla í átt að toppi þessa faraldurs og þá er mikilvægara en nokkru sinni að gefast ekki upp og halda út.  Við komumst í gegnum þetta og sjáum fram á betri tíð með fólkið okkar með okkur.

 Það hefur borið á því að heimsóknarbann sé ekki virt, við tökum það mjög alvarlega og hvetjum ykkur til þess að vinna með okkur í þessu, það er um líf eða dauða að tefla eins og við höfum því miður fengið að kynnast.  Það hefur einnig gerst að heimilismenn virði ekki þær reglur sem við höfum sett og varða það að fara ekki í verslanir, hraðbanka eða bíltúra með öðrum.  Við verðum að taka hart á þessu núna þegar faraldurinn er í hámarki og  þeir sem eru ekki tilbúinir að virða það verða að sæta takmörkunum á samneyti við aðra heimilismenn.  Þarna erum við fyrst og fremst að hugsa um að verja heimilismenn og minni hagsmunir verða að víkja fyrir meiri.

Við fengum kærkomna heimsókn, svona rétt inn fyrir andyrið, í vikunni.  Þá komu tvær sómakonur fyrir hönd Lionsklúbbsins Eden í Hveragerði færandi hendi.  Þær færðu heimilinu fjórar spjaldtölvur ásamt heyrnartólum.  Þær munu nýtast okkur vel og mun hvert heimili nú eiga sína spjaldtölvu.  Þetta mun án efa auðvelda samskipti milli heimilismanna og aðstandenda.

Okkur gengur ágætlega að koma okkur upp bakvarðasveit og þökkum innilega fyrir það.  Það er ómetanlegt að sjá hvernig nærsamfélagið stendur saman þegar á þarf að halda.  Við finnum fyrir miklum hlýhug og þökkum innilega allar góðar kveðjur, þær gera okkur kleyft að halda ótrauð áfram.  Fólkinu okkar líður flestu vel, bæði heimilis- og starfsfólki og þannig viljum við hafa það áfram.

 Kærar kveðjur úr Ási,

Birna Sif