frétt

Gaf Ási tvær rafskutlur

Erlendur Guðmundsson gaf  Ási tvær rafskutlur á dögunum til minningar um eiginkonu sína Guðlaugu Hróbjartsdóttur.  Önnur rafskutlan er tveggja sæta og hugsuð þannig að starfsmaður og heimilismaður geti farið saman í hjólatúr.  Hin er fyrir einn og getur hentað vel fyrir starfsmenn þegar komast þarf á milli staða á stóru heimili.  

Guðlaug bjó á Ási um fimm ára skeið en hún féll frá í maí á þessu ári.  Erlendur heldur enn tryggð við heimilið og kemur nær daglega í heimsókn.  Guðlaug og Erlendur hófu sinn búskap fyrir ríflega 60 árum á Njálsgötunni í Reykjavík.  Hann var ofan af Kjalarnesi en hún var alin upp í miðbæ Reykjavíkur.  Þau eignuðust einn son og fjögur barnabörn.  Guðlaug starfaði lengst af sem skrifstofumaður, meðal annars hjá Almenna byggingarfélaginu og þar kynntust þau Erlendur því hann starfaði þá þar sem vélamaður. 

Guðlaug hafði mikið yndi af hvers kyns tónlist og söng bæði í kirkjukór Laugarneskirkju og Árnesingakórnum.  Þau hjón höfðu gaman af því að ferðast og fóru mikið erlendis bæði á eigin vegum og eins með kórfélögum Guðlaugar.  Eftir að þau festu kaup á húsi í Hveragerði fyrir um 10 árum keyptu þau einnig húsbíl og ferðuðust mikið á honum.  Erlendur segir Guðlaugu hafa verið einstaklega skemmtilegan ferðafélaga, bæði á eiginlegum ferðalögum og eins í gegnum lífið sjálft.

Erlendur vill með gjöfinni  þakka fyrir þá umönnun sem Guðlaug fékk á Ási og segir hana hafa verið svo hamingjusama þessi síðustu ár sín.

Við þökkum Erlendi kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem muna koma sér afskaplega vel.