Eden

Eden

 Ás er Eden heimili.

Eden hugmyndafræðin snýst um að fólk haldi sjálfræði sínu og reisn þó flutt sé á hjúkrunarheimili og að heimilisfólk taki sjálfstæðar ákvarðanir um daglegt líf sitt. Hugmyndafræðin varð til í Bandaríkjunum fyrir meira en þrjátíu árum.

Þá hóf læknirinn Bill Thomas að vinna sem yfirlæknir á hjúkrunarheimili í Bandaríkjunum en hann hafði fram að því starfað á bráðadeild spítala.
Hann sinnti sínu starfi af alúð og einn daginn þegar hann var á stofugangi urðu straumhvörf í þeim hugmyndum sem hann hafði um hjúkrunarheimili. Hann settist niður hjá roskinni konu sem var rúmföst og spurði hana hvernig henni liði. Hún var lítil og fíngerð en með stór augu og fangaði athygli hans. Hún hikaði andartak en horfði svo beint í augu hans og sagði: Ég er fjarska einmana.
Við einmanaleika átti læknirinn engin ráð og engin lyf. Orð gömlu konunnar fylgdu honum og einn daginn ákvað hann að setjast niður á setustofu öldrunarheimilisins og eyða þar tíma. Reyna á sjálfum sér hvernig það væri að vera heimilismaður á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Hann skynjaði einmanaleika, leiða og vanmáttarkennd hjá fólkinu fyrir utan líkamlega krankleika.  Bill Thomas fékk tækifæri til að stofna hjúkrunarheimili eftir þennan eftirminnilega atburð og þróaði í samvinnu við frábært teymi Eden hugmyndafærðina.
Heimilin sem fylgja hugmyndafræðinni eru orðin mörg hundruð, í Danmörku, Hollandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og víða um Evrópu.. Aðstandendur eru ávallt velkomnir og hvattir til að koma sem oftast. Þeir eru hvattir til að leggja af mörkum, taka þátt í daglegu lífi og vera virkir inni á heimilinu þar sem þeirra aðstandandi býr. Í samráði við heimilismenn og aðstandendur er reynt að finna út hvaða siði og venjur fólk vill halda í þegar það flytur á Eden heimili. Svokallaðir Eden hjálparar eru börn, gæludýr og lifandi plöntur. Nú búa gæludýr í Ási, og börn koma reglulega í heimsókn, með starfsfólki og í samstarfi við skóla. Allir heimilismenn geta komið með sín húsgögn í sitt herbergi, sín rúmföt ef þeir kjósa, rúmteppi, gardínur og svo framvegis.

Áhugaverðar vefslóðir fyrir þá sem vilja kynna sér Eden hugmyndafræðina nánar: www.edenalt.org, www.eden-alternative.co.uk og www.edendenmark.dk